LÖG UMF STJÖRNUNNAR
Samþykkt á aðalfundi í apríl 2022.
1. gr.
Félagið heitir Ungmennafélagið Stjarnan, skammstafað U.M.F. Stjarnan.
2. gr.
Starfssvæði U.M.F. Stjörnunnar er Garðabær.
3. gr.
Tilgangur félagsins er að efla líkams og heilsurækt í formi keppnis- og almenningsíþrótta hjá öllum aldurshópum í Garðabæ. Ennfremur að efla samkennd bæjarbúa með virkri þátttöku í íþrótta- og félagsstarfi.
4. gr.
Félagið er myndað af einstaklingum í íþróttadeildum, sem hafa sameiginlega aðalstjórn. Aðalstjórn skipar deildarstjórnir og fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda.
5. gr.
Félagi getur hver sá orðið, sem skráður er í félagið og greiðir félags- eða æfingagjald til þess.
6. gr.
Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt aðalstjórn.
7. gr.
Semja skal ársreikning fyrir aðalstjórn U.M.F. Stjörnunnar og einstakar deildir félagsins. Hver deild skal annars vegar gera upp rekstur barna- og unglingastarfs og hins vegar rekstur keppnisíþrótta fyrir 18 ára og eldri. Jafnframt skal semja samstæðureikning fyrir UMF. Stjörnuna. Ársreikningurinn skal gerður samkvæmt lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju. Hann skal sýna yfirlit um rekstur og framkvæmdir á reikningsárinu og efnahagsreikning í lok
reikningsárs ásamt skýringum. Í ársreikningi skal sýna fjárhagsáætlun reikningsársins til samanburðar og í honum skal koma fram yfirlit um fjárhagslegar skuldbindingar félagsins. Ráðinn skal löggiltur endurskoðandi til þess að yfirfara og árita ársreikninginn í samræmi við lög og reglur og góðar skoðunarvenjur. Með endurskoðun sinni skal hann komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika ársreiknings og ganga úr skugga um að fylgt hafi verð ákvæðum laga, reglna og samþykkta um meðferð fjármuna. Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
8. gr.
Aðalstjórn U.M.F. Stjörnunnar fer með stjórn félagsins samkvæmt ákvæðum samþykkta þessara. Aðalstjórn skal skipuð 5 mönnum, formanni, varaformanni, ritara, og tveimur meðstjórnanda, ásamt 2 varamönnum. Aðalstjórn skal kosin á aðalfundi félagsins og skal formaður kosinn sérstaklega.
9. gr.
Aðalstjórn ber að samræma starfsemi félagsins, vinna að eflingu þess og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Aðalstjórn er málsvari félagsins út á við og skýrir sjónarmið þess á þeim vettvangi. Aðalstjórn ákveður félagsgjöld í upphafi starfstímabils og heldur skrá yfir alla félagsmenn. Aðalstjórn skal skipa trúnaðarmenn félagsins og þær nefndir sem hún telur nauðsynlegar hverju sinni. Aðalstjórn er heimilt að víkja mönnum úr félaginu eða setja þá í keppnisbann álíti hún framkomu þeirra vítaverða og brjóta í bága við anda íþróttahreyfingarinnar. Sjóði félagsins skal ávaxta í viðurkenndum innlánsstofnunum. Aðalstjórn skal halda stjórnarfundi minnst einu sinni í mánuði og skal halda um þá sérstaka gerðarbók. Enga fullnaðarákvörðun getur aðalstjórn tekið nema með samþykki meirihluta stjórnarmanna. Aðalstjórn hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og ræður starfsemi þess.
10. gr.
Aðalstjórn U.M.F. Stjörnunnar ræður framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn félagsins til þess að annast framkvæmd ákvarðana aðalstjórnar, framkvæmd ákvarðana stjórna einstakra deilda og verkefni félagsins. Framkvæmdastjóri félagsins skal sitja fundi aðalstjórnar, og hefur hann þar málfrelsi og tillögurétt, en eigi atkvæðisrétt.
Framkvæmdastjóri undirbýr fundi aðalstjórnar og hefur á hendi framkvæmd þeirra ákvarðana, sem aðalstjórn tekur. Framkvæmdastjóri er prókúruhafi U.M.F. Stjörnunnar. Honum er heimilt að veita öðrum starfsmanni félagsins prókúru að fengnu samþykki aðalstjórnar. Prókúruhafar félagsins skulu vera fjár sín ráðandi. Framkvæmdastjóri undirritar skjöl varðandi kaup og sölu eigna félagsins, lántökur og ábyrgðir, svo og önnur skjöl og samninga, sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir, sem samþykki aðalstjórnar eða stjórna einstakra deilda félagsins þarf til.
11. gr.
Aðalstjórn skal ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári halda fundi með formönnum deilda eða staðgenglum þeirra. Slíkir fundir kallast félagsráðsfundir og þar skulu helstu ákvarðanir aðalstjórnar kynntar og stefnumarkandi ákvarðanir ræddar.
12. gr.
Aðalstjórn skal hafa umsjón með stofnun nýrra íþróttadeilda.
13. gr.
Aðalstjórn skipar minnst 3 menn í deildarstjórnir. Að jafnaði skal skipa deildarstjórnir eftir að reglulegum starfstíma deilda lýkur. Hlutverk stjórna deilda er að annast daglegan rekstur deilda í samræmi við stefnu og markmið félagsins. Stjórnir deilda fara ásamt framkvæmdastjóra félagsins með framkvæmdastjórn deilda og fjármálastjórn í samræmi við fjárhagsáætlun hverju sinni. Þær hafa hver um sig umsjón með rekstri einstakra deilda, undirbúa fjárhagsáætlanir og sjá um að ársreikningar séu samdir reglum samkvæmt. Stjórnum einstakra deilda er heimil fullnaðarákvörðun mála, sem eigi varða verulega fjárhag deildanna, enda sé eigi ágreiningur innan stjórnar eða við framkvæmdastjóra um ákvörðunina.
14. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en 15. maí ár hvert. Til aðalfundar skal boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara í almennri auglýsingu í Garðabæ. Framboð til aðalstjórnar skal tilkynna til aðalstjórnar minnst viku fyrir aðalfund og skulu framboð til aðalstjórnar vera sérstaklega auglýst um leið og framboðsfrestur rennur út. Aðalfundur telst löglegur, sé löglega til hans boðað. Kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi hafa allir skuldlausir félagsmenn er náð hafa 18 ára aldri.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 1) Fundur settur.
2) Kosinn fundarstjóri og fundarritari.
3) Flutt skýrsla aðalstjórnar og einstakra deilda frá síðasta ári.
4) Lagðir fram endurskoðaðir reikningar aðalstjórnar og einstakra deilda félagsins, ásamt heildarreikningi fyrir allt félagið.
5) Umræða og atkvæðagreiðsla um skýrslu aðalstjórnar, deilda og reikninga. 6) Lagabreytingar.
7) Kjör aðalstjórnar.
· formaður til tveggja ára
· stjórnarmenn til tveggja ára
· varastjórnarmenn til tveggja ára · endurskoðendur til eins árs
· varaendurskoðendur til eins árs
8) Önnur mál.
Á aðalfundi félagsins ræður meirihluta greiddra atkvæða úrslitum mála. Þó þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breyta lögum félagsins, veita aðalstjórn heimild til að selja eða veðsetja fasteignir þess og til að leggja félagið niður.
Slíkar tillögur má einungis bera fram á aðalfundi félagsins, eða almennum fundi sbr. 14. gr., enda hafi þær borist aðalstjórn minnst tveimur vikum fyrir fund.
Aðalstjórn skal geta þess í fundarboði að slíkar tillögur hafi komið fram og að menn geti kynnt sér þær í Stjörnuheimilinu við Ásgarð á aðgengilegum tíma.
Verði tillaga um félagsslit samþykkt á aðalfundi eða almennum félagsfundi skal boða til framhaldsaðalfundar eða nýs félagsfundar eftir minnst tvær vikur en innan fjögurra vikna. Komi til félagsslita skal bæjarstjórn Garðabæjar hafa umráðarétt með eignum og sjóðum félagsins. Verði sambærilegt félag stofnað síðar innan bæjarfélagsins skulu eignirnar renna til þess.
15. gr.
Fyrir upphaf hvers starfsárs skulu stjórnir deilda gera fjárhagsáætlun fyrir komandi ár sem skal lögð fyrir aðalstjórn til samþykktar. Fjárhagsáætlun sem aðalstjórn hefur samþykkt skal vera meginregla um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn U.M.F. Stjörnunnar á viðkomandi reikningsári. Við gerð fjárhagsáætlunar skal hafa hliðsjón af fjárhagslegri stöðu félagsins og hverrar deildar.
Aðalstjórn U.M.F. Stjörnunnar skal árlega gæta þess svo sem kostur er, að heildarútgjöld félagsins fari ekki fram úr heildartekjum þess. Í fjárhagsáætlun skal koma fram rekstrar- og framkvæmdaáætlun, áætlun um efnahag í upphafi og lok árs, auk áætlaðra fjármagnshreyfinga. Form fjárhagsáætlunar skal vera í samræmi við form ársreiknings.
Heimilt er að endurskoða fjárhagsáætlun U.M.F. Stjörnunnar, aðalstjórnar og deilda félagsins, og gera á henni nauðsynlegar breytingar, ef í ljós koma breytingar á forsendum fjárhagsáætlunar. Slíkar breytingar öðlast gildi, þegar aðalstjórn félagsins hefur samþykkt þær.
Til útgjalda, sem ekki eru samningsbundin eða leiða af samþykkt aðalstjórnar U.M.F. Stjörnunnar, má ekki stofna nema til komi samþykki aðalstjórnar.
16. gr.
Aðalstjórn skal boða til almenns félagsfundar ef: 1) meirihluti aðalstjórnar telur þörf krefja.
2) minnst 1/10 hluti atkvæðisbærra félagsmanna krefst þess skriflega eða
3) félagsslit hafa verið samþykkt á aðalfundi eða almennum félagsfundi sbr. 14. gr.
Almennur félagsfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað samkv. 14. gr. Í fundarboði skal þess skýrt getið hvaða málefni fundinum er ætlað að fjalla um. Ekki er heimilt að afgreiða aðrar tillögur eða málefni á almennum félagsfundi en getið er í fundarboði. Almennur félagsfundur skal haldinn minnst tveimur vikum og mest fjórum vikum frá því að lögmæt krafa kom fram um að fundur skuli haldinn. Almennur félagsfundur er lögmætur ef minnst fjórðungur atkvæðisbærra félagsmanna sækir fundinn. Nú telst fundur ekki lögmætur vegna þessa og skal þá boða til nýs fundar með sama hætti og áður. Skal tekið fram í fundarboðinu að til fundarins sé boðað öðru sinni. Telst sá fundur lögmætur óháð því hversu mikil fundarsókn er.
17. gr.
Meginlitir búninga félagsins skulu vera blár og hvítur. Aðalstjórn er heimilt að leyfa undantekningar, s.s. að aukalitum sé bætt við. Aðalstjórn skal setja reglugerð um gerð búninga, sem hafi að geyma leiðbeinandi reglur um hvaða undantekningar verði samþykktar.
18. gr.
Aðalstjórn skal setja reglugerð um notkun og meðferð á félagsmerki Stjörnunnar. Ávallt skal gengið út frá því að merkið sé ess (s) á stjörnu.
19. gr.
Aðalstjórn skal setja sérstaka reglugerð um veitingar viðurkenninga fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
20. gr.
a) Félagið skal setja á aðalfundi eða almennum félagsfundi reglur um úthlutun úr afrekssjóði sem kallast stofnskrá afrekssjóðs.
b) Aðalstjórn skal setja sérstaka reglugerð um úthlutun úr afrekssjóði sem byggir á stofnskrá afrekssjóðs.
21. gr.
Með lögum þessum falla eldri lög félagsins úr gildi.